Skip to main content

Það er mikilvægt að allir, allt frá sjómönnum og smásölum til vísindamanna og neytenda beri traust til bláa MSC-merkisins. Við leggjum því mikið upp úr því að tryggja að vottanir MSC uppfylli ítrustu viðmið á heimsvísu; að þær séu trúverðugar og að umhverfismerkingar okkar og staðlar endurspegli bestu starfsvenjur í fiskveiðistjórnun. MSC hefur byggt upp áætlun sem er eina vottunaráætlunin fyrir villtar sjávarafurðir sem uppfyllir öll eftirfarandi alþjóðleg viðmið.

Leiðbeiningar FAO um ábyrgar fiskveiðar 

Fiskveiðistaðall MSC byggir að hluta til á leiðbeiningum FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna) um ábyrgar fiskveiðar (Code of Conduct for Responsible Fisheries). Viðmiðunarreglurnar voru settar árið 1995 sem rammi um alþjóðlegt átak til að efla og styðja við fiskveiðar sem eru stundaðar á sjálfbæran hátt og í sátt við umhverfið. Viðmiðunarreglurnar innihalda meginreglur og staðla fyrir verndun, stjórnun og þróun fiskveiða um allan heim. 

Leiðbeiningar FAO um umhverfismerkingar fisks og fiskafurða úr úthafsveiðum 

Vottunar- og umhverfismerkingarkerfi MSC fyrir sjávarafurðir er í fullu samræmi við alþjóðlega samþykktar meginreglur FAO um umhverfismerkingar á villtum sjávarafurðum.  

Þær fela m.a. í sér: 

• hlutlægt mat þriðja aðila á fiskveiðum sem er byggt á vísindalegum gögnum 

• gagnsæja ferla sem fela í sér samráðsferli og andmælaferli hagsmunaaðila 

• staðla sem byggja á þremur þáttum – sjálfbærni tegundarinnar sem veidd er, vistkerfum og stjórnunarháttum. 

Þetta er staðfest með ytri endurskoðun í samræmi við viðmið Global Sustainable Seafood Initiative. 

Global Sustainable Seafood Initiative (GSSI)

MSC er nú eina alþjóðlega vottunaráætlunin (fiskveiðistaðall og rekjanleikastaðall) fyrir villtar sjávarafurðir sem er viðurkennd af Global Sustainable Seafood Initiative (GSSI). GSSI er óháður mælikvarði á trúverðugleika sjálfbærra vottunaráætlana fyrir sjávarafurðir. GSSI var þróað í samvinnu umhverfisverndarsamtaka, alþjóðlegra fyrirtækja og stofnana, sérfræðinga í sjávarútvegi og ríkisstjórna og byggir á leiðbeiningum FAO.  

Úttektarferlið til að meta MSC samkvæmt þessu viðmiði tók meira en 18 mánuði og fól í sér opið samráðsferli um úttektina. Í henni voru metnir stjórnunarhættir, rekjanleiki og úttektir á aðfangakeðjunni innan MSC, sem og aðrir þættir, svo sem úthafsveiðar, viðkvæm sjávarvistkerfi og gagnasöfnun.

Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir 

Staðlar og reglugerðir geta skapað hindranir í alþjóðaviðskiptum, sem kallast tæknilegar viðskiptahindranir. Slíkar hindranir geta valdið ójöfnuði og komið í veg fyrir að ákveðin lönd taki þátt í og njóti góðs af alþjóðaviðskiptum. 

Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization – WTO) um tæknilegar viðskiptahindranir er gerður í þeim tilgangi að tryggja að staðlar skapi ekki óþarfa viðskiptahindranir. ISEAL (International Social and Environmental Accrediation and Labelling Alliance) leitaði lögfræðiálits hjá CIEL (Center for International Environmental Law) sem hefur staðfest að engar stofnanir eða samtök sem uppfylla viðmiðunarreglur ISEAL um góðar starfsvenjur, ýta undir viðskiptahindranir. 

Alþjóðlegar viðmiðunarreglur ISEAL um trúverðugleika staðlafyrirtækja 

MSC er eina vottunaráætlunin fyrir villtar sjávarafurðir sem er fullgildur meðlimur í ISEAL (International Social and Environmental Accreditation and Labelling Alliance). 

Sem ISEAL-meðlimur uppfyllir MSC viðurkenndar leiðbeiningar ISEAL um setningu og gerð staðla og eftirlit með áhrifum þeirra. Þetta krefst þess að: 

Resized-footer-image---SA-hake

Frekari viðurkenning á bestu starfsvenjum 

Auk þess að uppfylla alþjóðleg viðmið og leiðbeiningar um bestu starfsvenjur (Best Practice) hafa alþjóðlegar stofnanir og samtök, sem fylgjast með hlutverki staðla er tengjast verndun hafsins, viðurkennt áætlun okkar. 

Leiðandi á heimsvísu fyrir sjálfbærni hafsins 

MSC-vottun er notuð sem vísir í Aichi-markmiðum Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika. Hún er þar hluti af tíu ára átaksverkefni Sameinuðu þjóðanna sem miðar að því að draga verulega úr tjóni á líffræðilegum fjölbreytileika fyrir árið 2020. 

MSC og aðrir staðlar eru taldir hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að hjálpa fyrirtækjum og ríkjum að ná heimsmarkmiðum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna með því að veita leiðbeiningar um bestu starfsvenjur (Best Practice).