Að stuðla að sjálfbærum fiskveiðum er eitt af grundvallarmarkmiðum MSC. Til að veiðar séu metnar sjálfbærar þarf að vera tryggt að nægur fiskur sé eftir í sjónum fyrir komandi kynslóðir og áhrif á umhverfi og vistkerfi sé lágmarkað. Til að það geti orðið þarf stjórnun veiðanna að vera markviss og í samræmi vð bestu þekkingu.
Til að fá fiskveiðar vottaðar verður að vera hægt að sýna fram á að aðeins sé veitt úr stofnum sem eru sjálfbærir. Jafnvægi þarf að ríkja um hversu mikið af fiski er veitt og hversu mikið er skilið eftir í sjónum til að hrygna og tryggja viðkomu stofnsins.
Ef veitt er umfram sjálfbærnimörk fiskistofna verða þær fiskveiðar sem hafa öðlast vottun að laga sig að því og draga úr veiðum. Ef ekki er farið að þeim fyrirmælum geta viðkomandi fiskveiðar misst vottun sína hjá MSC. Veiðar sem missa vottun geta ekki selt sjávarafurðir með bláa MSC-merkinu aftur fyrr en veiðistjórnun hefur verið endurskoðuð og uppbygging stofnsins sé tryggð.
Af hverju sjálfbærar fiskveiðar?
Fyrir samfélög um heim allan gegna fiskveiðar mikilvægu hlutverki í tengslum við efnahag, afkomu og fæðu. Meira en þriðjungur jarðarbúa treystir á sjávarafurðir sem meginuppsprettu próteins og 38 milljónir manna hafa atvinnu af veiðum á villtum fiskistofnum.
Ef við stundum sjálfbærar fiskveiðar getum við tryggt fæðu til framtíðar og getum stuðlað að því að draga úr fátækt og hungri. Ósjálfbærar veiðar eins og ofveiði, ólöglegar veiðar og of mikið magn meðafla geta aftur á móti sett auðlindir hafsins í hættu.
Í dag er talið að meira en þriðjungur allra veiða í heiminum séu stundaðar með ósjálfbærum hætti. Ef veiðar eru ósjálfbærar og þeim illa stýrt er líklegt að það dragi úr framboði á sjávarafurðum til langs tíma. Eftirspurn eftir sjávarfangi í heiminum heldur aftur á móti áfram að aukast.
Með því að stunda sjálfbærar veiðar er hægt að koma í veg fyrir samdrátt og tryggja að nægur fiskur sé eftir í sjónum, svo hægt sé að stunda veiðar um ókomna framtíð. Sterkari fiskistofnar geta verið mikilvæg uppspretta næringarríkrar fæðu fyrir aukinn fólksfjölda í heiminum. Talið er að ef fiskveiðum væri betur stýrt væri hægt að auka framleiðslu sjávarafurða um 16 milljónir tonna, en það er nóg prótein til að mæta þörfum 72 milljóna manna.
Með því að auka hlutdeild vottaðs villts sjávarfangs úr sjálfbærum veiðum í fæðuframboði heimsins er hugsanlega hægt að draga úr álagi á landi vegna próteinframleiðslu frá landbúnað og minnka koloefnisfótspor matvælaframleiðslu, en kolefnisfótsporið sem tengist framleiðslu sjávarafurða er að meðaltali minna en fótsporið sem tengist framleiðslu dýrapróteina á landi.
Hvað er ofveiði?
Þegar fiskistofnar eru undir svo miklu veiðiálagi að ungviði nær ekki kynþroska til að fjölga sér og styrkja stofninn – er talað um ósjálfbærar veiðar og ofveiði. Hvernig er MSC að takast á við ofveiði?
Hvernig geta veiðar verið sjálfbærar?
Vísindamenn meta hversu mikið er hægt að veiða á öruggan hátt án þess að það hafi áhrif á heilbrigði stofnsins í framtíðinni. Gögnum um stærð stofnsins er safnað, kannað er hvenær og hvar tegundin hrygnir og hversu mörg seiði eru líkleg til að lifa af til fullorðinsára. Þeir leggja einnig mat á umhverfisþætti sem geta haft áhrif á stofninn, svo sem afrán annarra tegunda.Einnig er hægt að grípa til mismunandi stjórnunaraðgerða til að vernda stofna gegn ofveiði, svo sem að banna veiðar á hrygningartíma og setja stærðarmörk til að vernda seiði.
Lykilatriði í sjálfbærum veiðum felst einnig í því að beita varúðarnálgun, sem krefst þess að dregið sé úr veiðum ef stofninn minnkar. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar deilistofnar eiga í hlut, þ.e.a.s. þegar stofnar ganga inn í landhelgi nokkurra mismunandi landa og löndin sem veiða úr stofninum þurfa að koma sér saman um heildarveiði til að koma í veg fyrir ofveiði.
Fiskistofnar þar sem veiðum er stýrt með sjálfbærum hætti eru almennt afkastameiri en stofnar sem ekki eru nýttir með þeim hætti.
“Við þurfum að stjórna fiskveiðum í heiminum á grundvelli sjálfbærni svo hægt verði áfram að útvega mannkyninu endurnýjanlegt, hollt og hagkvæmt prótein með lágt kolefnisfótspor.”
Forstjóri MSC
Hvernig stuðla sjálfbærar fiskveiðar að vernd hafsins?
Sjálfbærar veiðar hjálpa til við að viðhalda heilbrigðu og fjölbreyttu vistkerfi sjávar og lágmarka áhrif á tegundir í útrýmingarhættu og verndaðar tegundir.
Allar tegundir gegna einstöku hlutverki í tengslum við vistkerfi sjávar og eru hluti af því jafnvægi sem þarf að ríkja í fæðukeðjunni. Brotthvarf einstakra tegunda vegna ofveiði eða of mikils meðafla getur haft keðjuverkandi áhrif á allan fæðuvefinn.
Það eru ekki aðeins fiskistofnarnir sem njóta þess að vistkerfi hafanna sé heilbrigt. Staða vistkerfis hafsins getur líka haft áhrif á samspil hafs og loftslags. Þegar koltvíoxíð úr andrúmsloftinu leysist upp í sjó og binst við ólíka þætti lífríkis hafsins eins og þörunga, skel lindýra og plöntulíkt svif.
Loftslagsbreytingar hafa nú þegar haft veruleg áhrif á hafið og heilbrigði fiskistofna, sem gerir sjálfbærar veiðar mikilvægari en nokkru sinni fyrr.
Hvernig geta sjálfbærar veiðar lágmarkað áhrif á umhverfið?
Veiðar á ákveðinni fisktegund geta haft áhrif á meira en bara þá tegund sem ætlunin er að veiða. Ef ekki er hugað að sjálfbærni getur lífríki hafsins staðið ógn af veiðunum. Þar geta komið til þættir eins og eyðilegging búsvæða, töpuð veiðarfæri og óæskilegur meðafli.Gera þarf ráðstafanir til að draga úr meðafla – Þessi meðafli getur verið ýmsar fisk- og skelfisktegundir sem óæskilegt er að veiða, auk sjávarspendýra, skriðdýra, froskdýra og sjófugla. Ráðstafanir sem grípa þarf til gætu falið í sér að breyta veiðarfærum, forðast veiðar á svæðum þar sem vitað er að óæskilegar tegundir eða tegundir í útrýmingarhættu lifa eða fara um, og aðlaga starfshætti til að lágmarka hættu á að óæskilegum meðafla.
Hægt er að draga úr því að sjófuglar festist í veiðarfærum með því að leggja línur og net dýpra í sjónum og veiða á nóttunni í stað þess að veiða á daginn. Einnig er hægt að breyta búnaði til að gera tegundum sem ekki er ætlunin að veiða kleift að sleppa eða fæla þær frá því að koma of nálægt netum. Þetta getur einnig falið í sér að bæta við búnaði til að leyfa stórum sjávardýrum að sleppa úr netum og nota hljóðmerki til að hrekja burt sjávarspendýr.
Veiðiaðferðir sem fela í sér snertingu við hafsbotn, svo sem botnvörpuveiðar eða plógar, eru taldar umdeildar, vegna hættu á skemmdum á búsvæðum á hafsbotni. Hins vegar geta þessar veiðiaðferðir verið sjálfbærar ef þeim er vel stjórnað. Með rannsóknum á hafsbotni er hægt að afmarka viðkvæm svæði sem ætti að forðast, þar á meðal þau svæði þar sem viðkvæmar hægvaxandi tegundir er að finna, eins og t.d. kóralla. Við veiðar er einnig hægt að nota léttari veiðarfæri til að draga úr áhrifum af snertingu við hafsbotninn og í sumum tilfellum er hægt að beita veiðarfærum þannig að snerting við hafsbotn er lágmörkuð.
Einnig er hægt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að veiðarfæri týnist eða sé fleygt í sjó til að draga úr umhverfisáhrifum slíkra veiðarfæra sem oft ganga undir nafninu drauganet. Þetta er hægt t.d. með því að auka eftirlit og gera kröfur um að búnaður sem tapast sé sóttur og með því að auka notkun á efnum sem brotna niður í náttúrunni.
Hvernig MSC vottaðar fiskveiðar stuðla að umbótum
Hver er nálgun MSC í tengslum við veiðar sem eru vottaðar sem sjálfbærar?
Marine Stewardship Council skapar hvata fyrir þá sem stunda veiðar á sjálfbæran hátt í gegnum alþjóðlega viðurkennda fiskveiðivottunaráætlun og öflugt og þekkt umhverfismerki.
Staðall MSC er leiðandi þegar kemur að vottun á sjálfbærum veiðum. Hann byggir á bestu starfsvenjum í tengslum við fiskveiðistjórnun og vísindum þeim tengdum.
Fyrirtæki í sjávarútvegi undirgangast vottun af fúsum og frjálsum vilja og eru metin í samræmi við staðal MSC af óháðum þriðja aðila og verða að uppfylla þrjár meginreglur staðalsins:
- Sjálfbærir fiskistofnar
- Lágmarka umhverfisáhrif
- Skilvirk fiskveiðistjórnun
Fiskveiðar sem fá vottun þurfa að fara í gegnum endurskoðun á hverju ári og geta þurft að gera frekari úrbætur á starfsháttum sínum til að stuðla að verndun auðlinda hafsins fyrir komandi kynslóðir.
Nánari upplýsingar um MSC staðlana og hvernig fiskveiðar eru vottaðar sem sjálfbærar:
Find out more about our Standard and how fisheries are certified as sustainable.
MSC fiskveiðistaðallinn
MSC fiskveiðstaðallinn er notaður til að meta hvort veiðum sé vel stjórnað og hvort þær séu sjálfbærar. Staðallinn endurspeglar viðmið sem eru í samræmi við nýjustu alþjóðlega viðurkenndu vísindi í tengslum við fiskveiðirannsóknir- og stjórnun veiða.