Skip to main content

Ofveiði og ólöglegar veiðar eru alvarlegt vandamál sem er ógn við villta fiskistofna og vistkerfi hafanna. Um leið er afkoma og lífsviðurværi milljóna manna, um heim allan, sem treysta á veiðar sett í hættu.

Hvað er ofveiði og af hverju er ofveiði vandamál?

Þegar fiskistofnar eru undir svo miklu veiðiálagi að ungviði nær ekki kynþroska til að fjölga sér og styrkja stofninn – er talað um ósjálfbærar veiðar og ofveiði.  

Ofveiði hefur á undanförnum áratugum verið vaxandi vandamál, en ofveiddir stofnar eru nú þrefalt fleiri en árið 1970. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur eftirlit með yfir 500 fiskistofnum um allan heim. Árið 2022 er áætlað að yfir 35% þessara fiskistofna hafi verið ofveiddir.

Fyrir samfélög sem treysta á fiskveiðar geta áhrifin af hruni fiskistofna verið mjög alvarleg. Áhrif á lífríki hafsins geta einnig verið töluverð, en ofveiði er ein helsta orsök taps á líffræðilegri fjölbreytni sjávar.

Ólöglegar veiðar

Ofveiði er gjarnan afleiðing ólöglegra og stjórnlausra veiða þar sem ekki er farið eftir lögum og reglum um fiskveiðikvóta og ekkert tillit tekið til umhverfis og lífríkis. 

Verðmæti sem verða til vegna ólöglegra fiskveiða eru talin hlaupa á 10 til 25 milljörðum dollara á ári hverju. Þessar veiðar ógna fiskistofnum, vistkerfum og lífsviðurværi fólks sem stundar löglegar veiðar. 

MSC hefur að markmiði að útrýma ólöglegum fiskveiðum með því að útiloka kerfisbundið veiðar sem byggjast á rányrkju.  

Dæmi um stjórnlausar veiðar, rányrkju og ofveiði sem koma tókst böndum á eru veiðar á patagóníska tannfisknum (Patagonian Toothfish), en það er djúpsjávarfiskur sem finnst á suðurhveli jarðar. Um árabil voru stjórnlausar veiðar orsök mikils samdráttar í veiðum á þessari verðmætu tegund.  

Þökk sé afgerandi aðgerðum aðila sem stjórna tannfiskveiðum, hafa miklar framfarir við stjórnum veiðanna átt sér stað sem hefur leitt til betri afkomu stofnsins og þar af leiðandi meiri veiða, aukins framboðs afurða og að lokum til MSC vottunar á veiðunum.

“Allir jarðarbúar hafa hag af því að tekist sé á við ofveiði. Með því að vernda auðlindir sjávar gerum við einnig fleirum kleift að sækja í próteingjafa sem þeir þurfa nauðsynlega til að lifa heilbrigðu lífi.”

Dr Rohan Currey

Vísinda- og staðlastjóri MSC

Hvaða þættir stuðla að ofveiði?

Það eru nokkrir þættir sem stuðla að ofveiði, þar á meðal:

  • Aukin neysla:  Í nóvember 2022 náði íbúafjöldi jarðar 8 milljörðum og búist er við að árið 2050 verði jarðarbúar orðnir tæplega 10 milljarðar. Neysla fæðu úr höfum og vötnum (úr veiðum og eldi) eykst tvöfalt hraðar en íbúafjöldi jarðar.
  • Loftslagsbreytingar: Hækkun sjávarhita breytir göngumynstri fiskistofna, sem veldur því að þeir leita út fyrir hefðbundin fiskimið. Ef veiðiálag helst óbreytt á hinum hefðbundnu miðum, þrátt fyrir að hluti stofnsins hafi flutt sig um set getur það valdið ósjálfbærum veiðum og ofveiði. 
  • Ólöglegar og stjórnlausar veiðar (IUU fishing): Ofveiði er gjarnan afleiðing ólöglegra og stjórnlausra veiða þar sem ekki er farið eftir lögum og reglum um fiskveiðikvóta eða alþjóðareglum og ekkert tillit tekið til umhverfis og lífríkis.
  • Niðurgreiðslur og styrkir: Talið er að stjórnvöld víða um heim hafi eytt milljörðum dollara í styrki til að styðja við sjávarútveg. Á ofnýttum svæðum, þar sem tekjur af veiðum standa ekki undir kostnaði, er veiðum viðhaldið með slíkum styrkjum. Þannig stuðla styrkir og niðurgreiðslur að ósjálfbærum veiðum.

Hvað felst í sjálfbærum fiskveiðum?

Hægt er að skilgreina fiskveiðar sem sjálfbærar ef tryggt er að nægur fiskur sé eftir í sjónum til að viðhalda og byggja upp stofn. Einnig er mikilvægt að dregið sé úr áhrifum á umhverfi og lífkerfi. Til að þetta gangi eftir þarf stjórn veiðanna að vera öflug og skilvirk.   

Hvað felst í sjálfbærum fiskveiðum?

Hverjar geta verið afleiðingar af ofveiði?

Tæplega 38 milljónir manna starfa í tengslum við veiðar á villtu sjávarfangi. Samkvæmt tölum frá FAO úr fiskveiðiskýrslu Sameinuðu þjóðanna árið 2020 er áætlað að 10% jarðarbúa byggi lífsviðurværi sitt, að minnsta kosti að hluta, á fiskveiðum og fiskeldi.

Ef fiskistofnar hrynja gætir áhrifanna þegar í stað, en það getur tekið áratugi að byggja upp stofninn að nýju. Dæmi um þetta er hrun kanadíska þorskstofnsins árið 1992. Meira en 35.000 manns, sjómenn og starfsfólk í fiskivinnslum, í yfir 400 strandbyggðum í Kanada misstu lífsviðurværi sitt og atvinnu vegna þessa. 

Sjávarfang er einnig mikilvæg uppspretta próteina og næringarefna. Meira en 3 milljarðar manna treysta á prótein úr hafinu, þar sem fiskur er að minnsta kosti 20% af daglegri neyslu dýrapróteins.
Colourful coral with shoal of small fish and manta ray swimming above

Skemmdir á vistkerfum

Ofveiði getur stuðlað að skemmdum á vistkerfum, haft áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika, búsvæði og vistkerfi sem leggja sitt af mörkum til loftslags, hreins lofts, vatns og matar.

Áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika geta ekki aðeins átt sér stað með ofveiði á fiskistofnum sem ætlaðir eru til fæðu, heldur einnig með ofveiði á tegundum sem veiddar eru óviljandi. Þetta getur falið í sér tegundir í útrýmingarhættu eins og hákarla, skötur og skjaldbökur. Ef veiðar á hákörlum eru stundaðar, getur það t.d. haft keðjuverkandi áhrif á bráð þeirra og tegundir neðar í fæðukeðjunni og haft neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika.

Hvað er hægt að gera til að stöðva ofveiði og ólöglegar veiðar?

Þó reynt sé að stöðva ofveiði og ólöglegar veiðar þýðir það ekki að hætta eigi alfarið veiðum. Fiskveiðum sem er vel stýrt og eru sjálfbærar eru einfaldlega betri fyrir umhverfið og skila meira magni til langs tíma. 

Ef fiskveiðum í heiminum væri betur stýrt væri hægt að auka veiðar um 16 milljónir tonna, en það myndi duga til að fæða 72 milljónir manna.  

Í heimi þar sem ein helsta áskorunin er hvernig eigi að fæða aukinn fjölda fólks, munu matvæli úr sjó sem koma úr sjálfbærum veiðum gegna sífellt mikilvægara hlutverki.

Þrátt fyrir að fyrirsagnir fjölmiðla snúist öðru fremur um ofveiði,ólöglegar veiðar og slæma umgengni um auðlindir hafsins er að nást eftirtektaverður árangur í að auka framboð á sjálfbærum sjávarafurðum fyrir neytendur. Samkvæmt FAO Blue Transformation skýrslunni frá 2019 er talið að 82% af fiski sem landað er miðað við rúmmál komi úr veiðum á stofnum sem stýrt er með sjálfbærum hætti, sem er tæplega 4% aukning. Þetta þýðir að neytendur hafa í auknum mæli vald til að taka ákvarðanir um að velja sjálfbærni og stuðla þannig að betri umgengni um auðlindir hafsins. Sérstaklega á þetta við um vinsælar tegundir eins og túnfisk, ufsa og ansjósur.

 

Hvernig er MSC vottun á fiskveiðum að stuðla að umbótum?

Hvernig er MSC vottun á fiskveiðum að stuðla að umbótum?

Auk þess sem vottun stuðlar að heilbrigðum og sterkum fiskistofnum er gerð krafa um að fiskveiðar takmarki áhrif á búsvæði og aðrar sjávartegundir.

Hvað er MSC að gera í tengslum við ofveiði og ólöglegar veiðar?

MSC var stofnað til að bregðast við ofveiði og við teljum að fiskveiðistaðallinn okkar geti gegnt stóru hlutverki við að draga úr slíkum ósjálfbærum veiðum.

Í dag er næstum fimmtungur alls sjávarafla heimsins vottaður eða í mati vegna vottunar samkvæmt staðlinum. Nú er svo komið að fiskveiðistaðall MSC er langþekktasti staðallinn á heimsvísu fyrir sjálfbærar og vel stýrðar fiskveiðar og nýtingu sjávarfangs. Staðallinn er byggður á alþjóðlega viðurkenndum viðmiðunum fyrir sjálfbærni nýtingar þessara villtu auðlinda hafsins og endurspeglar nýjustu alþjóðlegu vísindi varðandi mat á fiskveiðum og fiskveiðistjórnun.

MSC staðallinn byggir á kröfum sem eiga að tryggja að fiskveiðar sem miða að því að vera vottaðar sem sjálfbærar nái fyrst og fremst til stofna sem eru nægileg sterkir til að geta endurnýjað sig og að fiskveiðarnar lágmarki áhrif á víðara vistkerfi hafsins. Staðallinn gerir einnig kröfu um að veiðum sé vel stjórnað og að þeir sem stunda veiðarnar fari eftir landslögum sem við eiga á hverjum stað og alþjóðalögum.

Mat er gert af óháðum aðilum og úttektir eru gerðar á hverju ári til að ganga úr skugga um að kröfur séu uppfylltar.

Nýlegar athuganir á vegum MSC leiddu í ljós að fiskistofnar sem eru vottaðir samkvæmt MSC staðlinum standa sig betur á helstu sjálfbærniviðmiðum en óvottaðar fiskveiðar. Þessir stofnar eru heilbrigðari, öflugri og mun síður er hætta á ofveiði.