Nálgun MSC er að allir geti tekið þátt í að vernda fiskistofna og lífríki hafsins til framtíðar. Neytendur eiga ekki að þurfa að neita sér um sjávarfang heldur að njóta þess.
Villtir fiskistofnar og sjávarfang eru mikilvæg auðlind, grundvöllur afkomu og uppspretta næringar fyrir milljónir manna um heim allan. Að stöðva fiskveiðar er ekki valmöguleiki, en við verðum að vera okkur meðvituð um að nýtingu eru takmörk sett og að vistkerfi hafsins eru viðkvæm.
Okkar starf felst í að stuðla að betri stjórn nýtingar til að tryggt sé að komandi kynslóðir geti áfram nýtt villtar auðlindir hafsins.
Hvað gerir MSC?
Við þróum staðla til að tryggja sjálfbærar veiðar fyrir fyrirtæki sem stunda fiskveiðar og fyrirtæki í virðiskeðjunni sem vilja stuðla að viðskiptum með afurðir úr slíkum veiðum.
Umhverfismerkið okkar hjálpar neytendum að velja vöru sem hefur verið vottuð í samræmi við okkar staðla.
Hvernig hjálpar nálgun MSC?
Þegar neytandinn kaupir vöru með bláa umhverfismerki MSC verður hann hluti af keðju þar sem hver hlekkur hjálpar til við að vernda fiskistofna og auðlindir hafsins. Við köllum þetta breytingakenninguna.Svona virkar þetta:
Fiskveiðar sem uppfylla MSC-staðalinn eru vottaðar af óháðum aðila sem sjálfbærar.
Smásöluaðilar og veitingastaðir velja að selja og bjóða upp á MSC vottaðar sjávarafurðir úr vottuðum veiðum umfram sjávarfang úr óvottuðum veiðum.
Rekjanleikavottun tryggir neytendum að eingöngu sjávarafurðir úr MSC vottuðum fiskveiðum séu seldar með bláa MSC merkimiðanum.
Neytendur kjósa að versla MSC-merktar vörur umfram aðrar.
Eftirspurn á markaði eftir MSC vottuðum sjávarafurðum eykst
Fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar og vilja fá vottun samkvæmt MSC staðlinum fjölgar, því þau sjá ávinninginn af því að bæta starfshætti sína.
Er nálgun MSC að virka?
Frá stofnun MSC árið 1997 hefur hreyfingu þeirra sem velja og selja sjálfbært vottaðar sjávarafurðir vaxið fiskur um hrygg:
550 fiskveiðar um allan heim eru nú vottaðar samkvæmt MSC fiskveiðistaðlinum.
Yfir 20.000 vörur með bláa MSC umhverfismerkinu eru til sölu í 66 löndum.
Tæplega 48.000 aðilar eru með MSC rekjanleikavottun, sem tryggir framboð á sjálfbært vottuðum sjávarafurðum í gegnum alþjóðlega aðfangakeðju.
Samkvæmt könnun sem gerð var árið 2021 sögðust 60% neytenda sjávarafurða að MSC-merkið myndi gera þá líklegri til að kaupa vöru.
MSC vill gera fleiri útgerðaraðilum kleift að færa sig í átt að sjálfbærni í veiðum. Það er gert í gegnum þá leiðsögn sem fylgir MSC stöðlunum og með styrkjum í gegnum Ocean Stewardship Fund, en í gegnum þann sjóð eru veittir rannsóknarstyrkir sem hjálpa þeim sem vilja stunda sjálfbærar fiskveiðar að bæta starfshætti sína enn frekar.
Vegna veiða sem hafa verið vottaðar samkvæmt MSC staðlinum er búið að stuðla að hundruðum umbóta. Þessar umbætur hafa t.d. gagnast tegundum og búsvæðum í útrýmingarhættu og minnkað óæskilegan meðafla.
Það er alltaf hægt að gera betur, en við teljum það óyggjandi að aðferðafræði MSC sé að stuðla að umbótum.