Loftslagsbreytingar eru að hafa töluverð áhrif á hafið og lífríki þess. Þessar breytingar eru m.a. að hafa áhrif á göngumynstur fiskistofna og fæðuframboð.
Hvaða áhrif hafa loftslagsbreytingar á hafið og lífríki þess?
Heimshöfin hafa mikil áhrif á loftslagsbreytingar: 83% af kolefnishringrásinni á heimsvísu fer í gegnum heimshöfin og þau hafa tekið til sín 93% af umframhitanum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda síðan á áttunda áratugnum.
Í sjónum er að finna á milli 500.000 og 10 milljónir tegunda, sem skipta miklu máli fyrir líffræðilegan fjölbreytileika plánetunnar okkar.
Í ljósi mikilvægis hafanna fyrir heiminn er mikilvægt að við nálgumst alla nýtingu auðlinda í hafinu á sjálfbæran hátt. Breytingar í hafinu þýða breytingar á fiskistofnum. Til að stjórna fiskveiðum á sjálfbæran hátt þarf að laga sig að þeim vandamálum sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér.
Á undanförnum 30 árum hefur orðið 50% aukning á tilvikum þar sem orðið hefur vart við svokallaðar hitabylgjur í sjónum.
Á heimsvísu er spáð að hitastig sjávar eigi eftir að hækka um 1-4°C árið 2100.
Þessar breytingar hafa áhrif á lífríki sjávar. Skyndileg hækkun á hitastigi og súrnun getur leitt til taps á búsvæðum og fækkað tegundum. Breyttir hafstraumar og hærra hitastig sjávar valda breytingum á útbreiðslu fiskistofna og hafa áhrif á uppbyggingu vistkerfa.
Tekist á við loftslagsbreytingar
Hvernig geta loftslagsbreytingar haft áhrif á fiskveiðar?
Loftslagsbreytingar eru ógn við fiskistofna og lífríki, en breytingar í hafinu geta líka skapað ný tækifæri til veiða.Því er spáð að á ákveðnum svæðum í hitabeltinu muni mögulegur aflasamdráttur nema allt að 40% árið 2050. Aftur á móti eru svæði á hærri breiddargráðum, eins og í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi, að sjá aukningu í útbreiðslu sumra fisktegunda.
Þessar breytingar hafa í för með sér áskoranir. Ef halda á áfram að stunda sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins getur þurft að aðlaga nálgun í veiðum að nýjum veruleika. Þeir sem stunda veiðar og stjórnvöld hafa oft átt erfitt með að koma sér saman um hvernig best sé að stýra veiðum t.d. þegar draga þarf verulega úr veiðum eða þegar göngumynstur fiskistofna breytist, stofnar færa sig af hefðbundnum veiðsvæðum og yfir lögsögumörk ríkja.
Álag á umhverfið vegna framleiðslu matvæla sem eru upprunnin úr fiskeldi eða fiskveiðum, svokölluð blá matvæli, er að meðaltali minna en gengur og gerist í samanburði við framleiðslu dýrapróteina á landi. Með því að tryggja framboð á sjávarfangi sem hlotið hefur vottun um sjálfbærni, er þannig hægt að auka framboð á hollri fæðu sem í framleiðslu hefur takmörkuð umhverfisáhrif.
Með því að auka framboð á bláum mat er hægt að styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna þar á meðal markmið 2: að bæta næringu, markmið 12: tryggja sjálfbæra neyslu og framleiðslu og markmið 14: sjálfbær nýting sjávarauðlinda.
Ef loftslagsbreytingar hafa áhrif á fiskistofna er áfram hægt að borða fisk?
Já. Með því að velja fisk og sjávarfang sem hefur fengið MSC vottun. Slíkum fiskveiðum er vel stýrt og þær eru líklegri til að standa af sér umhverfisbreytingar. Þessar veiðar eru byggðar á vísindalegri ráðgjöf til að tryggja að veiðar séu stundaðar með sjálfbærum hætti.
Fiskur er fæða með lágt kolefnisfótspor
Þess má líka geta að veiðar hafa minni áhrif á loftslag en framleiðsla margra annarra próteina. Rannsókn á losun gróðurhúsalofttegunda vegna veiða á villtum fiski leiddi í ljós að fyrir hvert kg af fiski sem er veitt er framleitt á bilinu eitt til fimm kg af kolefni. Til samanburðar má nefna að við ræktun á rauðu kjöti er talið að á bilinu 50 til 750 kg af kolefni verði til fyrir hvert kg af kjöti. Sjá: A study of greenhouse gas emissions of wild fisheries
Það eru líka vísbendingar um að sjálfbærar veiðar hjálpi til við að draga úr losun á kolefni með því að auka skilvirkni. Dæmi um þetta má sjá í íslenskum sjávarútvegi. Þó veiði hafi í sumum tilvikum verið að aukast hefur tekist að draga úr eldsneytisnotkun og kolefnislosun. Það hefur gerst t.d. með því að fækka skipum og með því að stytta veiðiferðir.Bláa umbreytingin
Hvernig mæta sjálfbærar fiskveiðar loftslagsbreytingum?
Til að fá vottun um að fiskveiðar séu sjálfbærar og uppfylli staðla MSC þarf veiðum að vera vel stjórnað. Ef yfirsýn og stýring er góð má ætla að slíkar fiskveiðar séu betur í stakk búnar til að mæta breytingum þ.m.t. loftslagsbreytingum.Vottaðar veiðar búa við skilvirkt eftirlit og stjórnun til að tryggja sjálfbærni og draga úr áhrifum þeirra á umhverfið. Fylgt er ráðleggingum vísindamanna og áætlanir eru til staðar um að bregðast við líklegum umhverfisbreytingum.
Með því að stunda nýtingu með þessum hætti er sýnt fram á að hægt er að taka tillit til bæði efnahagslegra og umhverfislegra þátta og á sama tíma standa vörð um heilbrigði heimshafanna og tryggja til framtíðar framboð á sjávarafurðum.
Hvað gerist þegar vottaðar veiðar eiga í erfiðleikum með að laga sig að loftslagsbreytingum?
Loftslagsbreytingar geta auðvitað haft áhrif á fiskistofna með ýmsum hætti og oft með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þessara breytingar geta valdið vandkvæðum, jafnvel fyrir MSC vottaðar fiskveiðar.
Hér eru tvö dæmi um MSC vottaðar veiðar þar sem fiskistofnar hafa orðið fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum:
Norðaustur-Atlantshafsmakríll
Miklar breytingar hafa orðið á útbreiðslu makríls í Atlantshafi síðan 2007. Stofninn hefur fært sig norður á bóginn eftir því sem sjávarhiti hækkar.
Breyting á göngumynstri makríls hefur leitt til deilna milli strandríkja um hvernig eigi að nýta stofninn. Fiskurinn færir sig yfir lögsögumörk ríkja og ekki hefur náðst samkomulag um hvernig best sé að stjórna veiðum í ljósi þessara breytinga.
Meðan ekki hefur náðst samkomulag mili þeirra ríkja sem eiga aðild að deilunni, hefur veiði verið umfram ráðgjöf fiskifræðinga. MSC vottun fyrir makríl í Norðaustur-Atlantshafi var því afturkölluð í mars 2019.
MSC kallar eftir því að þau strandríki sem eiga hlut að máli bregðist skjótt við, semji um nýtingu og að kvótar verði ákvarðaðir í samræmi við vísindalegar ráðleggingar.
Þorskur í Norðursjó
Þorskstofninn í Norðursjó hefur að undanförnu dregist saman, en ein meginástæða þess er talin vera loftslagbreytingar. Breyttar aðstæður virðast valda því að að ungviði eigi erfiðara með að lifa til fullorðinsára. Það að hafa færri fullorðna fiska hefur stuðlað að hningnun stofnsins og gert sjálfbærar veiðar á þorskstofninum erfiðari. Vegna þessarar þróunar var tilkynnt árið 2019 að þorskstofninn í Norðursjó myndi missa MSC vottunina.Útgerðarfyrirtæki brugðust við þessum fréttum með því að skuldbinda sig til aðgerða og til að endurreisa þorskstofninn á næstu fimm árum.
Hitabylgjur í hafinu og sjálfbærar fiskveiðar
Hvað er annað hægt að gera til að vernda fiskistofna?
Þeir sem stýra veiðum þurfa að leggja aukna áherslu á varúðarnálgun til að tryggja framtíðarstyrk fiskstofna. Skilvirk fiskveiðistjórnun krefst einnig verulegrar alþjóðlegrar samvinnu. Loks má nefna að það er veruleg áskorun fyrir mörg lönd að tryggja að jafnt tillit sé tekið til efnahagslegra og umhverfislegra hagsmuna.Nokkrar framfarir hafa orðið. Sem dæmi má nefna að lok árs 2017 náðu fulltrúar frá Bandaríkjunum, Danmörku f.h. Færeyja og Grænlands, Íslandi, Japan, Kanada, Kína, Noregi, Rússlandi, Suður-Kóreu og Evrópusambandinu samkomulagi um drög að samningi sem kemur í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar í Norður-Íshafi. Samningurinn nær til úthafsins og felur í sér að aðilar hans munu skuldbinda sig til að heimila ekki veiðar á samningssvæðinu fyrr en vísindarannsóknir hafa lagt grunn að sjálfbærum fiskveiðum.